- FYRIR EINSTAKLINGA -
VR-Skóli lífsins er netnámskeið fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára og er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Hvernig fæ ég vinnu? Hvað á ég að fá í laun? Hvað er jafnaðarkaup? Þessum spurningum og ótal fleirum svarað - á mannamáli. Netnámskeiðið tekur um 60 mínútur. Nemendur fá skírteini þegar þeir klára netnámið. Frábær viðbót við ferilskrána.
Einstaklingar sem eru á 16 ára eða eldri geta skráð sig sjálfir í skólann og oft mæla fyrirtæki með skólanum í nýliðaþjálfun. Tilgangurinn er að fræða og upplýsa ungt fólk um réttindi sín og skyldur til að styrkja stöðu þess á vinnumarkaði. VR Skóli lífsins fagnar 6 ára afmæli árið 2020 og hafa yfir 6.000 nemendur farið í gegnum netnámið.
Réttindi okkar á vinnumarkaði eru ekki sjálfsögð. Þau hafa ekki alltaf verið í gildi og í gegnum tíðina hefur vinnandi fólk á Íslandi og um allan heim barist fyrir réttindum sem í dag þykja sjálfsögð. Með því að standa vörð um þín eigin réttindi leggur þú þitt af mörkum í þessari baráttu. Það er allra hagur að standa vörð um réttindi sín.
VR var stofnað af starfsfólki í verslunarstétt árið 1891 í þeim tilgangi að berjast fyrir bættum kjörum og auknum réttindum. Eftir meira en 120 ára baráttu er þetta markmið óbreytt. Í dag eru félagar í VR rúmlega 36.000 og starfa við meira en 100 starfsgreinar. Hver einasti þessara félaga getur haft samband við okkur og fengið ráðgjöf eða aðstoð við að leita réttar síns. Þetta á líka við um þig. Vertu ófeimin/n við að slá á þráðinn í síma 510 1700 eða sendu okkur línu á vrskolilifsins@vr.is.
Til baka